29.5.2009 | 10:06
Og lélegar almenningssamgöngur
Mér finnst alveg ótækt að vera að hækka álögur á eldsneyti í landi þar sem almenningssamgöngur (strætó) hafa aldrei verið sérstaklega góðar. Það er ekki eins og fólk hafi mikið val um að sleppa bílnum.
Reiðhjólastígar eru reyndar orðnir góðir í Reykjavík (frekar nýtilkomið!), en það er langt í frá að höfuðborgarsvæðið í heild sinni sé samtengt með tilliti til hjólreiða, svo ekki er mikið val þar heldur.
Ég, og fleiri sem búið hafa erlendis, þekkja þann sið að kynna sér varla tímatöflu strætisvagna eða lesta, heldur labba bara út á stöð í góðum tíma og þurfa sjaldnast að bíða neitt lengi eftir næsta vagni / næstu lest (nær aldrei lengur en 10 mín.). Hér á landi dugir ekkert annað en að vera með áætlunina á hreinu - og nákvæma upphæð fyrir fargjaldi ef maður er ekki í áskrift (með kort/miða). Bara sú tilhugsun að þurfa að tína til eða útvega nákvæma upphæð fargjalds áður en maður leggur af stað lyktar af veseni. Er svo svakalega erfitt að gefa til baka af upphæð sem ekki er hærri en t.d. 500 kr.?
Í þokkabót er leiðarkerfinu reglulega breytt og það endurskipulagt með tilliti til hagræðingar. Ef maður venst því að geta ekki treyst á almenningssamgöngur þá er ekki mikil von til þess að það muni breytast, jafnvel á mörgum árum. Það er allavega mín reynsla.
Af hverju getur ekki verið einfalt og þægilegt að taka strætisvagn á Íslandi? Af hverju er fjármagn ekki sett í almenningssamgöngur til að bjóða upp á þær sem raunhæfan valkost? Af hverju á það bara að vera á færi þeirra sem eru með há laun og lága greiðslubyrði að koma sér auðveldlega milli staða - og til vinnu á sunnudagsmorgnum?!
Svör óskast.
Bensínlítrinn í 181 krónu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Quackmore
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég hef reynslu af almenningssamgöngukerfinu í Stokkhólmi og Osló og ég verð að segja að það er ekki betra þar en á höfuðborgarsvæðinu okkar, þegar maður er komin út í úthverfin þar. Það er vissulega gott í miðbænum í Stokkhólmi eins og það er í mörgum öðrum borgum en þar er dýrt að búa.
Mín reynsla af Strætó bs. er það rekur mjög gott og skilvirkt kerfi fyrir flesta hluta höfuðborgarsvæðisins. Það er alls ekki tímafrekara en kerfið í Stokkhólmi eða Osló fyrir úthverfin. Það er auðvitað þreytandi að það skuli vera hringlað með áætlunina en hvað kemur á undan eggið eða hænan? Á strætó að vera til á undan farþegunum eða farþegarnir á undan strætó? Hefurðu prófað að taka strætó? Það vantar ákveðna þjónustu hjá Strætó t.d. á S-N ásnum um Reykjanesbraut og tíðnin mætti vera þéttari og maður þarf að hafa áætlunina á takteinum en það þarf maður líka í úthverfum stórborga, þar sem lestir og vagnar koma kannski á hálftíma til klst. fresti. Það þýðir ekki að bera bílaborgina okkar saman við þéttar miðborgir í löndum í kringum okkur.
Árni Davíðsson, 29.5.2009 kl. 11:07
íslenska strætókerfið er ekki sambærilegt við neitt nema kanski asnakerrur í Yemen!
halkatla, 29.5.2009 kl. 13:23
Ég lendi iðulega í því að þegar ég þarf að skipta á milli leiða (t.d. að skipta úr 13 yfir í 1 við Ráðhúsið) að fyrri vagninn er aðeins of seinn og hinn er aðeins of fljótur svo að í staðinn fyrir að bíða í nokkrar mínútur, eins og vefsíða Strætó segir til um, þá missi ég af vagninum og verð allt of sein í vinnuna eða hvert sem ég er að fara. Þetta hefur ítrekað komið fyrir. það er algjörlega óþolandi þetta kerfi. Hins vegar er ósköp lítil von að því verði breytt á meðan að engir eru farþegarnir.... Kannski eru fleiri sem þurfa að taka strætó vegna þessara hækkana núna. Ekki biði ég samt í það að vera margra barna móðir að dröslast með börnin í og úr skóla/leikskóla í strætó, jafnvel þótt kerfið mundi batna.
Bíllaus (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 13:33
Sæll Árni, mín reynsla af úthverfastrætó í Stokkhólmi og Aþenu og jafnvel London er eiginlega mun betri en af kerfinu hér (það er helst Parísarkransinn sem er jafn óhentugur og okkar kerfi), og já, ég tók strætó í skólann heilan vetur og reiknaðist til að í 8. hvert skipti klikkaði eitthvað; vagninn sem ég beið eftir kom ekki eða kom of seint til að ég næði tengivagni, eða þá að tengivagninn kom ekki yfir höfuð svo ég þurfti að bíða í rúman hálftíma eftir þeim næsta.
Ég veit það líka að fólk í vaktavinnu getur ekki tekið morgunvaktir á sunnudögum nema það hafi aðgang að bíl, þar sem vagnarnir byrja ekki að ganga fyrr en um kl. 11:30 á sunnu- og helgidögum. Þrátt fyrir að vinnuveitanda beri í slíkum tilvikum að sjá til að starfskraftur komist til vinnu er slíkt ekkert vel séð til lengri tíma. Og þegar ég vann í Mosó og bjó í Garðabæ (reyndar fyrir 10 árum síðan) þá tók það mig allavega 20 mín. skemmri tíma að hjóla en að taka strætó þessa 15 km., þó ég væri ekki í neinu sérstöku formi. Mér finnst það ekki gott strætisvagnakerfi sem kemur verr út í samanburði við sunnudagshjólreiðafólk ef vegalengdin fer yfir 10-12 km.
Og þegar þú spyrð hvort strætó eigi að bæta þjónustuna fyrir framtíðarfarþega eða bara þá farþega sem þegar nýta sér þjónustuna þá er mitt svar það að meðan mér finnst ég ekki geta treyst vögnunum þá mun ég ekki „selja bíl nr. 2“ eins og hvatt var til í haust. Né heldur mun ég íhuga strætó nema í algjörri neyð. Mínar minningar af almenningssamgöngum á Íslandi eru í stuttu máli þær að það er vesen með fargjaldið (á meðan sænskir vagnstjórar gáfu til baka), kerfið er óáreiðanlegt (með tilliti til jöfnunartíma og tengivagna), og ferðir eru of strjálar.
Þessari reynslu minni af strætó verður ekki breytt héðan af, en það er enn von til þess að venja komandi kynslóðir á almenningssamgöngur. En þá þýðir ekki að bíða þar til þær kynslóðir hafa öðlast reynslu af lélegu kerfi sem þær treysta ekki.
Quackmore, 29.5.2009 kl. 16:30
Kannski rétt að benda á það í leiðinni að ég er mjög hlynnt reiðhjólum sem samgöngutæki, en mér finnst því miður ekki sérlega öruggt að hjóla í umferðinni hér í bæjarfélögunum umhverfis Reykjavík. Á meðan óskaplega lítið er gert til að auðvelda fólki að sleppa bílnum finnst mér ekki forsvaranlegt að hækka skatta á eldsneyti eða tala um vegatolla og aðrar hömlur.
Quackmore, 29.5.2009 kl. 16:34
Sæl(l). Reynsla fólks getur eflaust verið mjög mismunandi af almennings samgöngukerfum. Ég skil það fullvel að strætó hentar ekki öllum af mismunandi ástæðum. Ég á að vera á eigin bíl í vinnunni til að nota í ferðir. Því fer ég oft á bíl. en nota jafnt hjól og strætó þegar ég þarf ekki að vera á bílnum í vinnunni. Ég veit að ég er jafn lengi að fara milli úthverfis og miðborgarinnar með almenningssamgöngum í Osló og Stokkhólmi (Solna, Haninge) og hér á höfuðborgarsvæðinu. Til að ferðir gangi fljótt fyrir sig þarf maður að búa við lestarstöðina í þessum borgum, þar eru íbúðir dýrari en fjær. Ég lendi stundum líka í því að vagninn klikkar af einhverjum ástæðum og hef ekki gaman af því. Það má líka bæta miðasöluna (t.d. með sjálfsölum og sölu í gegnum póst) og bæta aðstöðu farþega á skiptistöðvum t.d. Hamraborg og Ártúni.
Með nýja leiðakerfinu hefur samt margt tekið stakkaskiptum. Það er orðið í flestum tilvikum auðveldara að komast endanna á milli á höfuðborgarsvæðinu heldur en var og hraðinn er orðinn meiri. Úr Mosfellsbæ getur maður verið 35 min í Kópavog, 40 min í Garðabæ og Hafnarfjörð. Það er, á staði sem eru við Hafnarfjarðarveginn og þar í grennd t.d. Smáralind. Það vantar en hraða N-S tengingu um Reykjanesbraut og tengingin milli Árbæjar og uppsveita Kópavogs var lögð af eftir skamman tíma
Fyrir hjól vantar almennilegar tengingar milli sveitarfélaganna sérstaklega í suðurátt úr Kópavog í Garðabæ og Hafnarfjörð og tengingar milli hverfa eru sumstaðar ekki nógu góðar. Ein af ástæðunum er að stórar stofnbrautir fyrir bíla skera sundur byggðina og búa til einangraðar eyjar en önnur ástæða er lélegt skipulag.
Ég mundi bara vilja benda þér á heimasíður Fjallahjólaklúbbsins (www.ifhk.is) og Landsamtaka hjólreiðamanna (www.lhm.is) og bloggið mitt arnid.blog.is ef þú ert óörugg(ur) að hjóla. Ég hjóla mikið og get ekki kvartað yfir að ég finni til óöryggis. Sama má segja um margt annað hjólreiðafólk. Góður staður að byrja á eru pistlar hér: http://www.fjallahjolaklubburinn.is/content/blogcategory/0/90/
Árni Davíðsson, 29.5.2009 kl. 23:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.