Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Korteri fyrir kosningar I

Nú er mér heitt í hamsi, en fremur sein að taka við mér (vegna próflesturs) og því munu allar færslur fram að kosningum fá heitið Korteri fyrir kosningar [rómverskt tölugildi].

 

 Æsing nr. 1 má rekja til hins meinta aukna kaupmáttar og hás launameðaltals.

Burt með þetta andskotans! meðaltal launa! Það er miðgildið sem þarf að sýna! Ef við tökum nú laun mín og samstarfskonu minnar, verkamannanna sem vinna við að flísaleggja og steypa vinnustaðinn okkar, 5 ritara/ræstitækna á Landspítalanum, 3 hjúkrunarfræðinga, 2ja ófaglærðra kennara (leiðbeinanda?), Davíðs Oddsonar og Hannesar Smárasonar, þá er ég nokkuð viss um að meðaltal okkar launa væri heldur hærra en það sem ég mun komast í kynni við sem armur launþegi. Miðgildið segði hinsvegar allt aðra sögu.

Og nú skora ég á hina háu herra þessa lands að sýna það í verki að þeir séu menn fólksins og sýna mér og öðrum (því ég trúi ekki öðru en að fleiri standi í sömu sporum) hvernig á að fara að því að borga af 15 milljón króna verðtryggðu láni + 1,5 milljóna króna bankaláni (fyrsta íbúðin) af launum sem eftir skatta og annan frádrátt eru um 134.000 kr., þegar matarkostnaður mánaðarins eru 22.000 kr., 9.000 fara í síma, internet og sjónvarp, 2500 kr. í hita og rafmagn, 4500 kr. (að meðaltali á ársvísu) í tannlækni, aðra heilbrigðisþjónustu (þ.m.t. lyf) og snyrtivörur, 4000 kr. í áfengi, kaffihús og skemmtanir, 5000 kr. (meðaltal á ársvísu) í fatnað og skó, 3000 kr. (að meðaltali á á mán. fyrir 5-10 ára tímabil) í húsgögn, (þ.m.t. rúm, sem á víst að endurnýjast á 10 ára fresti), og 3550 kr í strætó (skólakortið + gula kortið, m/ yfirdráttarvöxtum því annars gengur dæmið ekki upp)?

Já, hvernig á að fara að því að borga af 15 milljón króna verðtryggðu láni + 1,5 milljóna króna bankaláni þegar eftirstöðvar mánaðarlauna sparsams einstaklings sem hvorki á né rekur bíl, eru 81.500 kr.? Sé bíll reiknaður inn í dæmið má búast við að eftirstöðar launa séu á bilinu 61.000 – 69.500 (enginn óvæntur kostnaður eða viðgerðir reiknaðar inn í).

Hvert mynduð þið leita til að fá sem hagstæðust lán og vexti, svo afborganir lítillar fyrstu íbúðar sem kostar ekki nema 15,5 milljónir gangi upp með 65-80.000 kr. afborgun á mánuði?

Er kannski hægt að draga úr öðrum kostnaði? Hvert mynduð þið leita eftir aðstoð ef upp kæmi óvæntur kostnaður, t.d. vegna röntgen- eða sneiðmyndatöku, auka tannviðgerðar á ári (ég þarf nánast alltaf eina, svo ég reiknaði það inn í), eða annarar sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði? Kostnaður við hverja heimsókn til krabbmeinslæknis eða blóðmeinafræðings kostar um 4000 kr. Ein slík heimsókn og matarpeningar heillar viku eru horfnir.

Þessir útreikngar eiga svosem ekki við um mig í dag þar sem ég er með ögn hærri laun en fram í júlí 2006, en ég veit það hinsvegar að ef ég missi vinnuna eða þarf að hætta því ég kannski lendi í því að eignast barn (þar sem núverandi vinnutími hentar ekki dagmæðrum þessa lands), þá eru það helst störf með grunnlaun upp á 180.000 sem mér byðust. Þrátt fyrir háskólamenntun. Þrátt fyrir kaupmáttaraukningu. Þrátt fyrir velferðina og ríkidæmi þjóðarinnar.

 

Önnur leið sem ég sé út úr þessu er að einhver hinna háttsettu stjórnmálamanna gefi mér hönd sonar síns til hjónabands. Því auglýsi ég líka eftir slíkum sonum þessa lands, en þeir verða að vera orðnir lögráða og ekki nú þegar í öðru hjónabandi.


Um bloggið

Quackmore

Höfundur

Quackmore
Quackmore
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • SwissAirportVoucher
  • SwissAirportVoucher

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband