Sagan af Sterling.dk

Sumarfríið mitt hófst í París, og þar sem Iceland Express var þá eina flugfélagið sem bauð upp á bókun bara aðra leiðina þangað, var sá kostur valinn, og ekkert nema gott um það að segja. Ætlunin var nefnilega að fljúga heim frá Kaupmannahöfn tæpum fjórum vikum síðar.

Fimmtudaginn 5. júlí var ég svo stödd á Charles-de-Gaulle flugvellinum í París, þar sem mín beið (að ég hélt) flug til Kaupmannahafnar með dansk-íslenska flugfélaginu Sterling.dk . Ég mætti samviskusamlega 95 mínútum fyrir brottför á flugvöllinn og kom mér fyrir í röðinni sem myndazt hafði við inntékkunarborð Sterling. Fyrstu 20 mínúturnar eða svo gekk allt eðlilega fyrir sig, og röðin styttist á þeim hraða sem búast má við af slíkri röð.
Svo varð allt stopp. Einhverjar tafir í gangi, og við biðum bara róleg. Einhver maður gekk á milli okkar biðraðafólksins með nafnalista og spurði fólk að nafni. Og enn var allt stopp. Einhverjar stelpur voru dregnar út úr röðinni og sendar fremst, en 10 mínútum síðar voru þær enn þar (og í illgirni minni taldi ég þær að einhverju leyti ábyrgar fyrir því að ekkert okkar hinna gæti tékkað sig inn) og röðin hreyfðist ekki.

Sterling.dk segir á bókunarstaðfestingum sínum að þeir loki fyrir inn-tékk klukkustund fyrir brottför, og klukkan nálgaðist þau tímamörk þar sem við stóðum, einhver 12 stykki og biðum samviskusamlega. Enn hafði ég engar áhyggjur, því ég taldi að Sterling.dk myndi ekki fara að loka á bíðandi farþega.

Þá gerðist það, 50 mínútum fyrir áætlaða brottför. Eitthvað var greinilega tilkynnt við inntékkunarborðið, því skyndilega flykktust biðraðargestir þangað, svo ég flýtti mér líka til að heyra hver staðan væri. Í stuttu máli, þá var okkur tilkynnt að flugfélagið Sterling.dk væri búið að fylla vélina, en við myndum fá farmiðana okkar endurgreidda.

Endurgreidda?! Og lýðurinn gapti. Hvað með flugið okkar til Kaupmannahafnar? Og nú hófust upp hendur sem veifuðu bókunarstaðfestingunum sínum. Því miður, sagði flugvallarstarfsmaðurinn aftur; það er búið að fylla vélina en Sterling mun endurgreiða ykkur miðana. Þetta eru allar þær upplýsingar sem við höfum. Kannski er laust í flugið á morgun, kannski getið þið bókað þá.
- Og hvað? spurði einn okkar strandaglópanna. Borgar Sterling fyrir hótel ef við þurfum að gista auka nótt?
- Já kannski, það gæti alveg verið... var svar flugvallarstarfsmannsins. Traustvekjandi, afar traustvekjandi. [Síðar tilkynnti annar starfsmaður að það væri líka fullt í Sterling-flugið daginn eftir, svo útlitið var ekki gott.}
Og svo var okkur tjáð að AirFrance myndi fljúga 3svar sinnum til Kaupmannahafnar þennan dag; þeir væru í álmu D og ef við flýttum okkur þá gætum við kannski fengið laust sæti hjá þeim. En auðvitað þyrftum við sjálf að greiða fyrir þann miða.

Einhverju síðar kom einhver starfsmaður með símanúmer á miða, og sagði að þetta væri símanr. hjá Sterling ef við vildum hringja í flugfélagið. Já, ef VIÐ vildum hringja í Sterling til að fá lausn mála sem ÞEIR klúðruðu.
Skýringar flugvallarstarfsmanna voru á þá leið að Sterling bæri ekki að koma okkur til Köben og/eða greiða bætur nema flug félli niður eða væri seinkað, sem hvorugt átti við í okkar tilfelli. Þeir höfðu bara yfirbókað svona allsvakalega (12-15 manns í yfirbókun er all svakalegt!).

Ég þaut í einhverja internet-vél og greiddi heila evru (84 ISK) fyrir rétt rúmar 6 mínútur á netinu, sem dugði mér til að sjá að það væri laust í flug hjá AirFrance síðdegis, og ef ég bókaði fram og til baka aftur (því þeir eru með sama kerfi og Icelandair var þá með, hvað millilandaflug varðar) í febrúar-maí á næsta ári þá kæmist ég á milli fyrir 220 EUR; um 115 EUR meira en Sterling myndi svo síðar endurgreiða mér fyrir minn miða. SAS bauð upp á flug aðra leiðina milli Parísar og Köben daginn eftir, á um 24.000 ISK. En ekki fyrr en daginn eftir, og flug tveimur dögum síðar var á svipuðu verði.

Þegar ég leit í átt að inntékkunarborðinu sá ég að enn voru einhverjir strandaglópar þar (8-9 stykki), væntanlega fólk eins og ég sem ekki hafði efni á rándýrum last-minute-one-way miða með AirFrance, og sá ekki fram á aðra lausn en að hanga á flugvallarstarfsmönnunum í von um að málin myndu leysast.

Rétt þá kom ljósið í myrkrinu. Einn starfsmannanna hafði fundið það út að það væru laus sæti í Sterling-vélina til Billund, og spurði hvort við gætum hugsað okkur að fljúga þangað. Jú, hugsaði ég, það er allavega Danmörk. Og það hljóta að vera lestar- eða rútuferðir þaðan og til höfuðborgarinnar.

Í stuttu máli sagt bauðst okkur eftirstandandi strandaglópum að fljúga síðdegis til Billundi; 4 klst. síðar en flugið okkar til Köben hefði farið í loftið. Og í jafn stuttu máli sagt þáðum við öll það tilboð, því þaðan væru allavega meiri líkur á að ná rútu eða lest á sæmilegu verði. Einhverjar raddir heyrðust um að það yrði rúta í Billund, en ég náði því ekki hvort þetta þýddi að það biði eftir okkur rúta sem flytti okkur til Köben eða bara að það væru almennt í boði rútusamgöngur milli þessara borga. Við komuna til Billund var það svo tilkynnt í hátalarakerfi flugvélarinnar að þeir farþegar sem kæmu frá París og ætluðu að halda áfram til Kaupmannahafnar skyldu gefa sig fram við upplýsingaborðið eftir að hafa náð í farangurinn sinn. Og viti menn, okkar beið rúta og virkilega indæll bílstjóri. Og auðvitað var þetta ævintýri. Og auðvitað kom ég 9 klukkustundum síðar en áætlað hafði verið.

Jújú, við fengum samloku og gos í rútunni á leiðinni til Köben (rúta og veitingar í rausnarlegu boði Sterling.dk), og við fengum einhverja ávísun á fæði á CDG-flugvellinum (sem ég áttaði mig nú aldrei á hvar ég skyldi finna þann stað), en mér finnst það ekki viðskiptavinum bjóðandi að halda þeim í mjög svo miklum vafa í tæpa klukkustund hvort þeir komist á áfangastað á næstu dögum. Einhverjir hurfu frá (líklega til að reyna að redda sér öðru flugfari), og sitja því væntanlega uppi með aukakostnað upp á nokkurhundruð evrur vegna last-minute-high-season flugfargjalds hjá öðru flugfélagi, aðrir misstu af tengiflugi í Kaupmannahöfn og svo fær maður "...en Sterling ætlar að endurgreiða ykkur miðann. *Colgate-bros* " beint í smettið. Lausn vegna yfirbókunar hefði getað verið svo miklu betur undirbúin, en maður spyr sig hvort lággjaldaflugfélög komist upp með svona lággjaldaskítareddingar með því að valda svo gífurlegri óvissu hjá viðskiptavinum sínum að þeir séu öllum lausnum þakklátir.

Og það get ég sagt öllum sem spyrja mig út í Sterling.dk : Ég get alls ekki mælt með þessu flugfélagi. Leitið til annara flugfélaga, nema Sterling.dk sé eini mögulegi kosturinn á þessari ferðaleið, og þið standið nokkurnveginn í sömu sporum hvort sem þið bókið með þeim eða sitjið heima. Því það eru greinilega einhverjar líkur á að þið munum bara sitja heima þrátt fyrir að hafa bókað & greitt fyrir flugfar mörgum vikum áður. Og í því tilviki að Sterling.dk sé eini mögulegi kosturinn, skuluð þið kaupa ykkur staðfestingu á sæti (það kostar um 95 DKK aukalega að velja sér sæti um leið og maður bókar flugmiðann) því að mér læðist sá grunur að fólkið sem var á lista flugvallarstarfsmannsins (meðan við hin biðum í röð) hafi verið fólk sem hafi borgað fyrir staðsetningarbókun.

 

Meðfylgjandi er mynd af matarávísuninni minni. Ef einhver getur sagt mér hvaða matsala þetta er og hvar hana er að finna á CDG-flugvellinum í París, þá má sá hinn sami eiga ávísunina. 

 SwissAirportVoucher


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þarfagreinir

Flugferðalög eru með þeim mest stressandi iðjum sem er hægt að taka sér fyrir hendi - en það er alltaf gaman að geta sagt svona sögur eftirá ... er það ekki?

Þarfagreinir, 18.7.2007 kl. 22:31

2 Smámynd: Quackmore

Jújú, og ég var svosem ekkert að kvarta þar sem ég sat í rútunni frá Billund og horfði á danskt landslag líða hjá. Sérstaklega þar sem mínu ferðalagi lauk (þá vikuna) í Kaupmannahöfn og þangað komst ég á endanum. En útlitið var ansi dökkt á tímabili, og maður kemst ekki hjá því að hugsa að sameiginlegt skipsbrot sé ekki bara sætt heldur miklu frekar öflugt.

Og ég þarf bara að lesa mér til um þessar nýju sam-evrópsku reglur varðandi skyldur flugfélaga, þannig að ég geti (vonandi) rekið þetta ofan í kok þeim sem næstur flytur mér svona fréttir.

Quackmore, 19.7.2007 kl. 09:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Quackmore

Höfundur

Quackmore
Quackmore
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • SwissAirportVoucher
  • SwissAirportVoucher

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband