Og lélegar almenningssamgöngur

Mér finnst alveg ótækt að vera að hækka álögur á eldsneyti í landi þar sem almenningssamgöngur (strætó) hafa aldrei verið sérstaklega góðar. Það er ekki eins og fólk hafi mikið val um að sleppa bílnum.

Reiðhjólastígar eru reyndar orðnir góðir í Reykjavík (frekar nýtilkomið!), en það er langt í frá að höfuðborgarsvæðið í heild sinni sé samtengt með tilliti til hjólreiða, svo ekki er mikið val þar heldur.

Ég, og fleiri sem búið hafa erlendis, þekkja þann sið að kynna sér varla tímatöflu strætisvagna eða lesta, heldur labba bara út á stöð í góðum tíma og þurfa sjaldnast að bíða neitt lengi eftir næsta vagni / næstu lest (nær aldrei lengur en 10 mín.). Hér á landi dugir ekkert annað en að vera með áætlunina á hreinu - og nákvæma upphæð fyrir fargjaldi ef maður er ekki „í áskrift“ (með kort/miða). Bara sú tilhugsun að þurfa að tína til eða útvega nákvæma upphæð fargjalds áður en maður leggur af stað lyktar af veseni. Er svo svakalega erfitt að gefa til baka af upphæð sem ekki er hærri en t.d. 500 kr.?

Í þokkabót er leiðarkerfinu reglulega breytt og það endurskipulagt með tilliti til „hagræðingar“. Ef maður venst því að geta ekki treyst á almenningssamgöngur þá er ekki mikil von til þess að það muni breytast, jafnvel á mörgum árum. Það er allavega mín reynsla.

Af hverju getur ekki verið einfalt og þægilegt að taka strætisvagn á Íslandi? Af hverju er fjármagn ekki sett í almenningssamgöngur til að bjóða upp á þær sem raunhæfan valkost? Af hverju á það bara að vera á færi þeirra sem eru með há laun og lága greiðslubyrði að koma sér auðveldlega milli staða - og til vinnu á sunnudagsmorgnum?!

Svör óskast.


mbl.is Bensínlítrinn í 181 krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki sykurinn, heldur sýran

Það er víst ekki sykurinn sem er verstur fyrir tennurnar, heldur sítrónusýran (sem stundum kallast sýrustillar í innihaldi). Ávaxtasafi inniheldur líka sýrur (þó ekki eins miklar og gos, að ég held) og það er m.a. hann sem er að eyða upp barnatönnum, en ekki það að börn undir grunnskólaaldri séu að drekka svo mikið gos. Hvað börn undir 18 ára varðar, þá gæti ég alveg trúað að þeir séu svipað sekir, þessir sykruðu og sykurlausu.

Það að sykurskattur verði lagður á þarf ekki endilega að bjarga tannheilsu fólks, því það mun enn geta drukkið sykurlaust gos og sýrða vatnsdrykki sér til skaða.

Það væri kannski betra að fá tannskatt á drykki sem innihalda sítrónusýrur (og eyrnamerkja þann skatt).

 

Over and out. 


mbl.is Tillaga um sykurskatt ótrúleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðli Sterling-flugfélagsins?

Einhvernveginn (og því miður) kemur þetta manni ekki á óvart; ég flaug með Sterling í fyrrasumar og vegna verulegrar yfirbókunar hjá þeim átti bara að skilja umfram-farþegana eftir á flugvellinum með orðunum „en Sterling endurgreiðir ykkur miðann... *colgate bros*“ og ábendingu um að ef við hlypum strax út í hinn enda flugstöðvarinnar gætum við kannski náð flugi með AirFrance á áfangastað.

Ég vísa bara í færsluna sem ég skrifaði um þessa upplifun: http://www.quackmore.blog.is/blog/quackmore/entry/265392/


mbl.is Farþegum neitað um endurgreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsið mitt og húsið þitt

"Þú tekur ekki bara hús eða bíl einhvers manns og byrjar að mála hann án samráðs." segir Jakob Frímann Magnússon. En er það ekki það sem Jakob og borgin hafa sjálf verið að gera? Mála hús einhverra aðila án þess að hafa við þá samráð? En það er kannski ekki samráð við eiganda hússins eða bílsins sem þarf að hafa. Kannski á Jakob við að vilji maður mála bíl einhvers þá skuli haft samband við hann, Jakob, til að fá úr því skorið hvort tilvonandi útlit bílsins komi til með að skemma götumyndina eður ei.

Ástæðan fyrir þessu samráðsleysi virðist vera sú að íbúum/eigendum sé ekki leyfilegt til að hafa hús sín í  mörgum litum, og slík níðsla á auga hins almenna borgara fyrirgerir öllum rétti eigenda til viðræðna við hreinsunarmafíu Reykjavíkurborgar áður en málað er yfir ósómann. Mála fyrst, spyrja svo. Næsta skref í hreinsunarviðleitni Jakobs verður kannski að koma á ákveðnu "dress code" innan opinberra stofnanna; starfsfólki verður gert skylt að dressa sig á þann máta að það harmóneri við innviðið. Nú eða útveggi hússins, sé gert ráð fyrir uppákomum eða myndatökum utanhúss. 

Það eru spennandi tímar framundan. 


mbl.is Sköpun og skemmdarverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þjóðin guð?

„Á guð að fara út úr þjóðsöngnum?" spyr Guðni. Ég spyr á móti: Á þjóðin ekkert að koma inn í þjóðsönginn?

Eftir því sem mér sýnis í fljótu bragði þá er ekki minnst svo oft á land & þjóð í núverandi þjóðsöng.

Fyrsta lína fyrsta erindis tekur að vísu fram að um sé að ræða guð vors lands, og svo er „Íslands þúsund ár" tvítekið. Í hverju erindi, reyndar.

Annað erindi inniheldur línuna "vér kvökum vort helgasta mál", en deila má um hvort þetta helgasta mál er íslenska tungan eða bara hjartans trúarlegt kvak. 

Þriðja erindi inniheldur þó hvorki meira né minna en tvær vísanir í þjóðlíf vort, sem má með sanni fullyrða að geti ekki verið annað en íslenskt þjóðlíf:
" og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
              :; Íslands þúsund ár, ;:
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,"

Engu að síður finnst mér þetta full lítið til að bera titilinn "Þjóðsöngur". Enda skilst mér að þetta hafi fyrst og fremst verið ort sem sálmur. 

Í lokin sting ég upp á að lag Baggalúts, Ísland, ég elska þig, verði tekið upp sem hinn nýji þjóðsöngur vor.


mbl.is Guðni: Nú skal kennsluborðum kristninnar velt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleði gleði! Allir í strætó!!

Þýðir þetta ekki bara að fleiri og fleiri vilja taka strætó? Er slík atferlisbreyting Íslendinga ekki gleðiefni?
mbl.is Svindl með strætókort stóreykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan af Sterling.dk

Sumarfríið mitt hófst í París, og þar sem Iceland Express var þá eina flugfélagið sem bauð upp á bókun bara aðra leiðina þangað, var sá kostur valinn, og ekkert nema gott um það að segja. Ætlunin var nefnilega að fljúga heim frá Kaupmannahöfn tæpum fjórum vikum síðar.

Fimmtudaginn 5. júlí var ég svo stödd á Charles-de-Gaulle flugvellinum í París, þar sem mín beið (að ég hélt) flug til Kaupmannahafnar með dansk-íslenska flugfélaginu Sterling.dk . Ég mætti samviskusamlega 95 mínútum fyrir brottför á flugvöllinn og kom mér fyrir í röðinni sem myndazt hafði við inntékkunarborð Sterling. Fyrstu 20 mínúturnar eða svo gekk allt eðlilega fyrir sig, og röðin styttist á þeim hraða sem búast má við af slíkri röð.
Svo varð allt stopp. Einhverjar tafir í gangi, og við biðum bara róleg. Einhver maður gekk á milli okkar biðraðafólksins með nafnalista og spurði fólk að nafni. Og enn var allt stopp. Einhverjar stelpur voru dregnar út úr röðinni og sendar fremst, en 10 mínútum síðar voru þær enn þar (og í illgirni minni taldi ég þær að einhverju leyti ábyrgar fyrir því að ekkert okkar hinna gæti tékkað sig inn) og röðin hreyfðist ekki.

Sterling.dk segir á bókunarstaðfestingum sínum að þeir loki fyrir inn-tékk klukkustund fyrir brottför, og klukkan nálgaðist þau tímamörk þar sem við stóðum, einhver 12 stykki og biðum samviskusamlega. Enn hafði ég engar áhyggjur, því ég taldi að Sterling.dk myndi ekki fara að loka á bíðandi farþega.

Þá gerðist það, 50 mínútum fyrir áætlaða brottför. Eitthvað var greinilega tilkynnt við inntékkunarborðið, því skyndilega flykktust biðraðargestir þangað, svo ég flýtti mér líka til að heyra hver staðan væri. Í stuttu máli, þá var okkur tilkynnt að flugfélagið Sterling.dk væri búið að fylla vélina, en við myndum fá farmiðana okkar endurgreidda.

Endurgreidda?! Og lýðurinn gapti. Hvað með flugið okkar til Kaupmannahafnar? Og nú hófust upp hendur sem veifuðu bókunarstaðfestingunum sínum. Því miður, sagði flugvallarstarfsmaðurinn aftur; það er búið að fylla vélina en Sterling mun endurgreiða ykkur miðana. Þetta eru allar þær upplýsingar sem við höfum. Kannski er laust í flugið á morgun, kannski getið þið bókað þá.
- Og hvað? spurði einn okkar strandaglópanna. Borgar Sterling fyrir hótel ef við þurfum að gista auka nótt?
- Já kannski, það gæti alveg verið... var svar flugvallarstarfsmannsins. Traustvekjandi, afar traustvekjandi. [Síðar tilkynnti annar starfsmaður að það væri líka fullt í Sterling-flugið daginn eftir, svo útlitið var ekki gott.}
Og svo var okkur tjáð að AirFrance myndi fljúga 3svar sinnum til Kaupmannahafnar þennan dag; þeir væru í álmu D og ef við flýttum okkur þá gætum við kannski fengið laust sæti hjá þeim. En auðvitað þyrftum við sjálf að greiða fyrir þann miða.

Einhverju síðar kom einhver starfsmaður með símanúmer á miða, og sagði að þetta væri símanr. hjá Sterling ef við vildum hringja í flugfélagið. Já, ef VIÐ vildum hringja í Sterling til að fá lausn mála sem ÞEIR klúðruðu.
Skýringar flugvallarstarfsmanna voru á þá leið að Sterling bæri ekki að koma okkur til Köben og/eða greiða bætur nema flug félli niður eða væri seinkað, sem hvorugt átti við í okkar tilfelli. Þeir höfðu bara yfirbókað svona allsvakalega (12-15 manns í yfirbókun er all svakalegt!).

Ég þaut í einhverja internet-vél og greiddi heila evru (84 ISK) fyrir rétt rúmar 6 mínútur á netinu, sem dugði mér til að sjá að það væri laust í flug hjá AirFrance síðdegis, og ef ég bókaði fram og til baka aftur (því þeir eru með sama kerfi og Icelandair var þá með, hvað millilandaflug varðar) í febrúar-maí á næsta ári þá kæmist ég á milli fyrir 220 EUR; um 115 EUR meira en Sterling myndi svo síðar endurgreiða mér fyrir minn miða. SAS bauð upp á flug aðra leiðina milli Parísar og Köben daginn eftir, á um 24.000 ISK. En ekki fyrr en daginn eftir, og flug tveimur dögum síðar var á svipuðu verði.

Þegar ég leit í átt að inntékkunarborðinu sá ég að enn voru einhverjir strandaglópar þar (8-9 stykki), væntanlega fólk eins og ég sem ekki hafði efni á rándýrum last-minute-one-way miða með AirFrance, og sá ekki fram á aðra lausn en að hanga á flugvallarstarfsmönnunum í von um að málin myndu leysast.

Rétt þá kom ljósið í myrkrinu. Einn starfsmannanna hafði fundið það út að það væru laus sæti í Sterling-vélina til Billund, og spurði hvort við gætum hugsað okkur að fljúga þangað. Jú, hugsaði ég, það er allavega Danmörk. Og það hljóta að vera lestar- eða rútuferðir þaðan og til höfuðborgarinnar.

Í stuttu máli sagt bauðst okkur eftirstandandi strandaglópum að fljúga síðdegis til Billundi; 4 klst. síðar en flugið okkar til Köben hefði farið í loftið. Og í jafn stuttu máli sagt þáðum við öll það tilboð, því þaðan væru allavega meiri líkur á að ná rútu eða lest á sæmilegu verði. Einhverjar raddir heyrðust um að það yrði rúta í Billund, en ég náði því ekki hvort þetta þýddi að það biði eftir okkur rúta sem flytti okkur til Köben eða bara að það væru almennt í boði rútusamgöngur milli þessara borga. Við komuna til Billund var það svo tilkynnt í hátalarakerfi flugvélarinnar að þeir farþegar sem kæmu frá París og ætluðu að halda áfram til Kaupmannahafnar skyldu gefa sig fram við upplýsingaborðið eftir að hafa náð í farangurinn sinn. Og viti menn, okkar beið rúta og virkilega indæll bílstjóri. Og auðvitað var þetta ævintýri. Og auðvitað kom ég 9 klukkustundum síðar en áætlað hafði verið.

Jújú, við fengum samloku og gos í rútunni á leiðinni til Köben (rúta og veitingar í rausnarlegu boði Sterling.dk), og við fengum einhverja ávísun á fæði á CDG-flugvellinum (sem ég áttaði mig nú aldrei á hvar ég skyldi finna þann stað), en mér finnst það ekki viðskiptavinum bjóðandi að halda þeim í mjög svo miklum vafa í tæpa klukkustund hvort þeir komist á áfangastað á næstu dögum. Einhverjir hurfu frá (líklega til að reyna að redda sér öðru flugfari), og sitja því væntanlega uppi með aukakostnað upp á nokkurhundruð evrur vegna last-minute-high-season flugfargjalds hjá öðru flugfélagi, aðrir misstu af tengiflugi í Kaupmannahöfn og svo fær maður "...en Sterling ætlar að endurgreiða ykkur miðann. *Colgate-bros* " beint í smettið. Lausn vegna yfirbókunar hefði getað verið svo miklu betur undirbúin, en maður spyr sig hvort lággjaldaflugfélög komist upp með svona lággjaldaskítareddingar með því að valda svo gífurlegri óvissu hjá viðskiptavinum sínum að þeir séu öllum lausnum þakklátir.

Og það get ég sagt öllum sem spyrja mig út í Sterling.dk : Ég get alls ekki mælt með þessu flugfélagi. Leitið til annara flugfélaga, nema Sterling.dk sé eini mögulegi kosturinn á þessari ferðaleið, og þið standið nokkurnveginn í sömu sporum hvort sem þið bókið með þeim eða sitjið heima. Því það eru greinilega einhverjar líkur á að þið munum bara sitja heima þrátt fyrir að hafa bókað & greitt fyrir flugfar mörgum vikum áður. Og í því tilviki að Sterling.dk sé eini mögulegi kosturinn, skuluð þið kaupa ykkur staðfestingu á sæti (það kostar um 95 DKK aukalega að velja sér sæti um leið og maður bókar flugmiðann) því að mér læðist sá grunur að fólkið sem var á lista flugvallarstarfsmannsins (meðan við hin biðum í röð) hafi verið fólk sem hafi borgað fyrir staðsetningarbókun.

 

Meðfylgjandi er mynd af matarávísuninni minni. Ef einhver getur sagt mér hvaða matsala þetta er og hvar hana er að finna á CDG-flugvellinum í París, þá má sá hinn sami eiga ávísunina. 

 SwissAirportVoucher


Madeleine II

Já, nú bíður maður bara eftir að sama batteríið verði sett í gang og þegar Madeleine litlu var rænt í Portúgal. Fjölmiðlaumfjöllun dag eftir dag, fjöldasendur tölvupóstur, frægt fólk lofandi fundarverðlaunum. (kannski voru það bara breskir "celebrities" sem lofuðu launum. Ég þekki engan alsírskan "celeb" sem gæti þegar hafa lofað verðlaunum til höfuðs ræningjunum.)

Reyndar hef ég enn ekki heyrt neitt nema þessa einu frétt; ætli íslenskir/evrópskir fjölmiðlar séu ekki að standa sig?

 

En, svona að öllu gamni (og kaldhæðni) slepptu, þá er þetta ferlegt, og þessi faðir áreiðanlega ekkert í minni krísu en bresku foreldrarnir.  Sem og allir aðrir sem hafa orðið fyrir barnsráni, hvort sem fjölmiðlasirkusinn er settur í gang eður ei.


mbl.is Þriggja ára gamall hollenskur drengur hvarf í Róm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hví skyldi maður ekki flytja lögheimili sitt?

 Það er náttúrulega rökréttast að flytja lögheimili sitt fyrir ársdvöl eða lengri, innan- eða utanlands. Við það öðlast maður réttindi á nýja staðnum. Ef maður flytur t.d. úr Reykjavík norður á Akureyri með börn án þess að flytja lögheimili sitt/barna sinna, þá þarf að semja við Reykjavíkurborg um að greiða sérstaklega fyrir skólagöngu þessara barna á Akureyri þar sem útsvar forráðamanna greiðist ennþá til Reykjavíkur.  

Ef þessi tiltekna móðir hefur aldrei þegið neina þjónustu frá danska ríkinu (t.d. daggæslu fyrir börnin eða húsaleigubætur), og alltaf greitt fyrir heilbrigðisþjónustu þar eins og útlendingur þá er spurning hvort hún eigi endurkröfurétt á íslenska ríkið frá og með þeim tíma sem hún var í hvorugu kerfinu (hvorki því danska né íslenska). Hafi hún þegið þjónustu á sama verði og heimamenn, þá ætti þetta kannski ekki að koma svo á óvart.

Íslenskir námsmenn á Norðurlöndunum (og annarsstaðar) þurfa að greiða sama verð og útlendingar þegar þeir leita eftir heilbrigðisþjónustu hér á landi (í sumar- og jólafríum), allavega hafa vinkonur mínar þurft að gera það. 

 

 Og titill fréttarinnar; "Réttindalaus eftir dvöl erlendis" er villandi. Réttara þætti mér að segja "...eftir búsetu erlendis". Heil fimm ár teljast tæpast vera "dvöl"... 


mbl.is Réttindalaus eftir dvöl erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Korteri fyrir kosningar II

Ef allt þetta fjármagn er til í landinu, og þjóðin svo rík að stjórnmálamenn geti réttlætt veglegar eftirlaunagreiðslur til sín (þrátt fyrir að þeir geti margir hverjir gengið beint inn í önnur störf og séu hvergi á flæðiskeri staddir), hvernig stendur þá á því að aðrir þjóðfélagsstarfsmenn (Hinir Ósýnilegu) verða svona lítið varir við allan þennan auð? Á okkar auður einungis að finnast í hjartanu?

 
Síðasta sumar réði ég mig, í fyrsta skipti á minni þrítugu ævi, í einkafyrirtæki. Fram að því hafði ég alltaf starfað hjá Ríkinu, Borginni, eða Sveitarfélaginu. Fram að því hafði ég aldrei verið með hærri mánaðarlaun (fyrir skatta) en 168.000 kr. Þau laun fékk ég fyrir það að skrásetja reikninga í einni af bókhaldsdeildum Reykjavíkurborgar, og má Reykjavíkurborg klappa sér á bakið fyrir það. 10 vikna forfallakennsla í þeirri grein sem ég er háskólamenntuð til veitti mér ekki einu sinni svo há laun, heldur hélt sig nokkrum þúsundköllum neðar. Því ég er hvorki  með kennsluréttindi né rétta háskólagráðu. Og þrítugsaldrinum náði ég ekki fyrr en 2 vikum eftir starfslok.

Háskólagráða og 10 mánaða starfsreynsla í grunnskóla náðu semsagt ekki að hífa kennslulaunin mín upp fyrir 165.000 kr. Það var að vísu úti á landsbyggðinni, en ég reikna samt ekki með að skólar á höfuðborgarsvæðinu greiði neitt betur, nema ef möguleg 2% verðbólgu-/vísitöluhækkun á þessu ári kynni að hafa híft launin eitthvað upp.

Grunnlaunin mín sem stuðningsfulltrúi í grunnskólabekkjum (með 14 mánaða reynslu af umönnunarstörfum á bakinu, stúdentspróf og lokapróf af uppeldisbraut) voru 132.000 kr., eða 2-3000 kr. lægri en sem ritari á Landspítalanum, og það þrátt fyrir að áðurnefnd háskólagráða veitti mér 4 (fjögurra!) prósenta launahækkun sem stuðningsfulltrúi (sem Lansinn gerði ekki). Aftur gæti aldurinn hafa spilað inn í, enda var ég ekki nema 28 ára á þessum tíma.

Og á sama tíma og ekki virðist til fjármagn til að ráða í nægjanlega margar stöður stuðningsfulltrúa, keppast stjórnmálamenn um að hvetja til að skólamáltíðir verði ókeypis. Maður sem barnlaus starfsmaður spyr sig og aðra, hvort er mikilvægara að skólarnir bjóði upp á góð menntunarskilyrði eða ókeypis skólamáltíðir?

Annar flötur á þessu er, að á meðan foreldrar greiða um 250 kr. fyrir máltíð hvers barns, þá hljóta þeir að geta gert þá kröfu að hráefnið í máltíðina sé a.m.k. 150 kr. virði, og þá er miðað við að sveitarfélög niðurgreiði hverja máltíð um sem nemur kostnaði við mötuneyti eða aðkeyptan mat + akstur. Hversu ódýra leið er fólk tilbúið að kjósa til að fá ókeypis mat fyrir börnin sín? Fullunnar kjötvörur úr afgangshráefnum? Tveggja daga gamalt brauð úr bakaríum? Mjólkina sem rann út í fyrradag? Kálið sem bragðast ekki svo illa sé því drekkt í sósu? Er þetta framtíðin sem sveitarfélög og foreldrar vilja? Ef svo er, þá endilega tjáið ykkur!

There’s no such thing as a free lunch.

 
Hvað með ókeypis leikskóla? Eins og fram kemur hér ofar þá á ég ekki börn sjálf, en ég gæti vel trúað að fleiri myndu kjósa það að geta gengið að leikskólaplássi vísu þegar barnið er orðið ársgamalt, en að fá hann ókeypis við 3ja ára aldurinn.

Eins og staðan er í dag eru laun ófaglærðs starfsfólks á leikskólum það lág að ekki virðist hægt að manna nægjanlega margar stöður til að anna eftirspurn um leikskólapláss.

En kannski hef ég rangt fyrir mér. Ég auglýsi hér með eftir könnunum sem taka á þessu máli; hvort foreldrar vilji almennt öruggt pláss í sínu hverfi við 14 mánaða aldur eða ókeypis pláss við 30 mánaða aldur, og einnig hvernig þetta skiptist hlutfallslega og á landsvísu.

 Þetta mættu kjósendur hafa til hliðsjónar þegar stjórnmálamenn reyna að selja þeim gulli slegnar hugsjónir. Allt sem er ókeypis mun 1) vera gert ókeypis á sem ódýrastan hátt, og 2) verða til þess að finna verði leiðir til að ná þessum peningum aftur inn í Ríkis- eða Sveitarfélagshítina, á einn eða annan hátt.


Næsta síða »

Um bloggið

Quackmore

Höfundur

Quackmore
Quackmore
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • SwissAirportVoucher
  • SwissAirportVoucher

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband